Hafðu samband: 520 4000 [email protected]

Minning um mann

Nú ætla ég að syngja ykkur lítið fallegt ljóð
um ljúfan dreng, sem fallinn er nú frá,
um dreng sem átti sorgir en ávallt samt þó stóð
sperrtur þó að sitthvað gengi á.

Í kofaskrifli bjó hann, sem lítinn veitti yl,
svo andvaka á nóttum oft hann lá.
Þá Portúgal hann teygaði, það gerði ekkert til,
það tókst með honum yl í sig að fá.

    Viðlag:

    Þið þekktuð þennan mann,
    þið alloft sáuð hann,
    drykkjuskap til frægðar sér hann vann.

Börnum var hann góður, en sum þó hræddust hann,
hæddu hann og gerðu að honum gys.
Þau þekktu ei litlu greyin þennan mæta mann,
já, margt er það sem börnin fara á mis.

    Þið þekktuð..

Munið þið að dæma ei eftir útlitinu menn,
en ýmsum yfir þessa hluti sést.
Því til er það að flagð er undir fögru skinni enn
en fegurðin að innan þykir best.

    Þið þekktuð..

Nú ljóðið er á enda um þennan sómasvein,
sem að þráði brennivín og sæ.
Hann liggur nú á kistubotni og lúin hvílir bein,
í kirkjugarði í Vestmannaeyjabæ.

    Þið þekktuð..


Gylfi Ægisson