Hafðu samband: 520 4000 [email protected]

Snerpa - Rekstrarleyfi

Póst- og fjarskiptastofnun veitir hér með Snerpu ehf. kt. 430197-2319, Mánagötu 6, 400 Ísafirði, leyfi til að reka almennt fjarskiptanet og veita fyrirtækjum og einstaklingum tal- og gagnaflutningsþjónustu á netinu eins og það er nánar ákvarðað í leyfi þessu, greinum 1-23 Leyfi þetta er veitt samkvæmt lögum nr. 107/1999, sbr. lög nr. 110/1999.

 1. gr. Leyfishafi
 2. gr. Breyting á ákvæðum leyfisins og fl.
 3. gr. Upplýsingaskylda leyfishafa og úrræði Póst- og fjarskiptastofnunar vegna eftirlits
 4. gr. Bókhaldsleg aðgreining
 5. gr. Staðlar
 6. gr. Tíðnir
 7. gr. Radíóstöðvar og sambönd
 8. gr. Fjarskiptavirki
 9. gr. Númer, vistföng
10. gr. Neyðarfjarskipti
11. gr. Neyðarhringingar
12. gr. Upplýsingar um símanúmer
13. gr. Skylda til að upplýsa um breytingu á símanúmeri
14. gr. Skilmálar, gjaldskrár
15. gr. Leynd fjarskipta
16. gr. Vernd og öryggi gagna
17. gr. Hlerun
18. gr. Gjöld
19. gr. Framsalsbann
20. gr. Afturköllun
21. gr. Leyfistími
22. gr. Lög
23. gr. Varnarþing

1. gr.
Leyfishafi

Snerpu ehf. kt. 430197-2319 (hér eftir nefnt leyfishafi) er hér með veitt leyfi til að reka almennt fjarskiptanet og veita fyrirtækjum og einstaklingum tal- og gagnaflutningsþjónustu á netinu.

2. gr.
Breyting á ákvæðum leyfisins og fl.

Leyfishafa ber að haga starfsemi sinni í samræmi við lög um fjarskipti á hverjum tíma.

Póst- og fjarskiptastofnun skal heimilt að breyta ákvæðum leyfis þessa til samræmis við breytingar á lögum og reglum og þegar alþjóðasamningar gefa tilefni til slíks eða það telst nauðsynlegt til að ná fram markmiðum fjarskiptalaga, sbr. 12. gr. laga nr. 107/1999. Enn fremur er heimilt að gera breytingar á leyfinu þegar allsherjar endurskoðun leyfa fer fram skv. bráðabirgðaákvæði I í lögum 107/1999. Nýtt leyfisgjald skal ekki tekið við slíka breytingu. Leiði breytingar á leyfistímanum til skerðinga á réttindum leyfishafa samkvæmt leyfisbréfi þessu öðlast hann ekki rétt til skaðabóta vegna slíkra skerðinga.

Leyfishafi fullnægi á hverjum tíma, eftir gildistöku leyfisins, þeim tilskipunum og reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, og þeim skuldbindingum sem Ísland undirgengst samkvæmt gildandi alþjóðasamningum á sviði fjarskiptamála.

3. gr.
Upplýsingaskylda leyfishafa og úrræði Póst- og fjarskiptastofnunar vegna eftirlits

Leyfishafi skal sæta eftirliti með fjárhagi sínum af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar, eins og nánar er kveðið á um í 4. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 110/1999. Póst- og fjarskiptastofnun skal enn fremur heimilt að grípa til úrræða eins og kveðið er á um í 5. gr. þ.e. að krefjast allra upplýsinga sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Upplýsingar þessar skulu veittar munnlega eða skriflega allt eftir ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar og innan þeirra tímamarka sem hún setur.

Sem hluti af eftirliti með fjárhagsstöðu leyfishafa getur Póst- og fjarskiptastofnun krafist að hann afhendi henni ársreikninga, milliuppgjör, greinargerðir endurskoðenda hans og aðrar sambærilegar upplýsingar. Ef Póst- og fjarskiptastofnun metur fjárhagsstöðu leyfishafa slíka að honum kunni hugsanlega að vera ókleift að fullnægja ákvæðum leyfis þessa getur hún krafist umbóta á henni fyrir tiltekinn tíma.

Póst- og fjarskiptastofnun getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað rekstrarleyfishafa og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum um fjarskipti eða um Póst- og fjarskiptastofnun, reglum eða ákvörðunum stofnunarinnar. Við þessar aðgerðir skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.

4. gr.
Bókhaldsleg aðgreining

Sá þáttur starfsemi leyfishafa sem leyfisbréf þetta tekur til skal vera bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi hans.

5. gr.
Staðlar

Búnaður leyfishafa skal ætíð vera í samræmi við evrópska staðla sem gerðir eru af ETSI, fjarskiptastaðlastofnun Evrópu eða aðra staðla sem Póst- og fjarskiptastofnun mælir fyrir um.

6. gr
Tíðnir

Leyfishafi skal einungis nota þær tíðnir til starfrækslu á fjarskiptanetinu sem hann hefur fengið úthlutað hjá Póst- og fjarskiptastofnun og greiða fyrir þær úthlutanir í samræmi við gjaldskrá stofnunarinnar.

7. gr.
Radíóstöðvar og sambönd

Uppsetning hvers konar radíókerfa þ.m.t. radíóstöðva og radíósambanda sem eru leyfisskyld samkvæmt lögum og reglum er háð stöðvar- og tækjabúnaðarleyfi sem Póst- og fjarskiptastofnun veitir að fenginni umsókn frá leyfishafa. Í umsóknum skal tilgreina allar breytur fyrir viðkomandi radíóstöð eða samband þ.m.t. staðsetningu, tegund og hæð loftnets, sendistyrk og ráðgerða notkun.

8. gr.
Fjarskiptavirki

Leyfishafa er heimilt að setja upp fjarskiptavirki sem hluta af fjarskiptanetum sínum sbr. 1. gr. án sérstakrar heimildar hverju sinni, sjá þó ákvæði 7. gr. um radíóstöðvar og sambönd.

9. gr.
Númer, vistföng

Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar númerum og númeraröðum til leyfishafa í samræmi við reglur um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga, nr. 6/1999.
Fyrir númer greiðist gjald skv. gjaldskrá Póst- og fjarskiptastofnunar.

10. gr.
Neyðarfjarskipti

Leyfishafi skal í samræmi við fyrirmæli Póst- og fjarskiptastofnunar eða samgönguráðherra tryggja og viðhalda nauðsynlegum fjarskiptum við sérstakar aðstæður, íslenska ríkinu að kostnaðarlausu.

11. gr.
Neyðarhringingar

Leyfishafi skal afgreiða allar neyðarhringingar í símanúmerið 112 án tillits til greiðslustöðu áskrifenda

12. gr.
Upplýsingar um símanúmer

Leyfishafi skal tryggja að öllum fyrirspurnum um símanúmer sem hann hefur úthlutað notendum skv. 9 gr. Upplýsingar skulu ekki veittar ef áskrifandi æskir þess að viðkomandi númer sé óskráð.
Leyfishafi skal verða við öllum eðlilegum beiðnum um að láta í té símaskrárupplýsingar skv. 2. mgr. 35. gr. laga nr. 107/1999.

13. gr.
Skylda til að upplýsa um breytingu á símanúmeri

Skipti áskrifandi um símanúmer þannig að hann gerist áskrifandi hjá öðrum rekstrarleyfishafa skal leyfishafi óski fyrrum áskrifandi eftir því kynna hið nýja númer í gamla númerinu í 90 daga frá því að skipt var um númer þannig að þegar hringt er í gamla númerið þá segi að áskrifandi sé hættur með þetta númer en sé kominn með tilgreint númer.

14. gr.
Skilmálar, gjaldskrár

Skilmálar og gjaldskrár leyfishafa skulu liggja frammi á afgreiðslustöðum leyfishafa til afhendingar.
Í skilmálum leyfishafa skulu koma fram, auk almennra skilmála, þær gæðakröfur sem hann setur sér varðandi tímamörk á tengingu og viðgerðum og aðrir þættir sem snerta afnot áskrifenda af þjónustu leyfishafa svo sem fyrirkomulag endurgreiðslu eða bóta ef umsamin þjónusta er ekki veitt og meginatriði reglna um lausn ágreinings varðandi þjónustuna.
Ekki skal nota upplýsingar um áskrifendur í öðrum tilgangi en að skrá þá og veita þeim þjónustu nema með skriflegu samþykki viðkomandi.

Leyfishafi skal heimila öllum á þjónustusvæði sínu að gerast áskrifendur að þjónustu sinni án mismunar. Leyfishafi skal útbúa þjónustusamning þar sem tiltekið er hvaða þjónusta verður veitt eða að öðrum kosti vísað í viðeigandi skilmála. Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist breytinga á þjónustusamningi ef talið er að ákvæði hans samræmist ekki lögum og reglum.
Við skráningu símtala vegna reikningagerðar skal upphaf símtals teljast þegar sá sem hringt er til lyftir símtóli eða framkvæmir sambærilega aðgerð og lok þess þegar lagt er á af þeim sem hringdi eða framkvæmd sambærileg aðgerð.

15. gr.
Leynd fjarskipta

Leyfishafi skal tryggja að leyndar sé gætt í fjarskiptum í samræmi við viðkomandi löggjöf á Íslandi.

16. gr.
Vernd og öryggi gagna

Leyfishafi skal tryggja að meðferð gagna er varða fjarskipti sé í samræmi við lög og reglugerðir og farið sé eftir reglum samgönguráðherra um skráningu og meðferð upplýsinga um fjarskipti.

17. gr.
Hlerun

Leyfishafi skal koma fyrir, á eigin kostnað, nauðsynlegum tækjabúnaði til að tryggja möguleika á löglegri hlerun símtala.

18. gr.
Gjöld

Leyfishafi skal við útgáfu leyfis þessa greiða leyfisgjald í samræmi við 1. mgr. 11. gr. laga nr. 110/1999 um Póst- og fjarskiptastofnun.
Leyfishafi skal í samræmi við 4. mgr. 11. gr. laga nr. 110/19999 greiða rekstrargjald sem nemur 0,25% af bókfærði veltu sem leyfishafi hefur af leyfisbundinni starfsemi sinni samkvæmt leyfisbréfi þessu.
Um önnur gjöld fer samkvæmt gjaldskrá Póst- og fjarskiptastofnunar.

19. gr.
Framsalsbann

Leyfið er ekki framseljanlegt hvorki að hluta né í heild.

20. gr.
Afturköllun

Póst- og fjarskiptastofnun getur afturkallað leyfið ef leyfishafi stendur ekki í skilum með greiðslur vegna rekstrargjalda eða annarra gjalda, er veitt greiðslustöðvun eða verður gjaldþrota. Einnig getur Póst- og fjarskiptastofnun afturkallað leyfið ef um alvarleg brot á ákvæðum þess er að ræða, eða þeim lögum og reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.

21. gr.
Leyfistími

Gildistími leyfis þessa er í 10 ár frá útgáfudegi leyfisins.

22. gr.
Lög

Að öðru leyti gilda um leyfi þetta lög um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 110/1999 og lög um fjarskipti nr. 107/1999.

23. gr.
Varnarþing

Varnarþing vegna leyfis þessa skal vera í Reykjavík.


Póst- og fjarskiptastofnun 18.ágúst 2000

___________________________________
 Gústav Arnar

______________________________
 Friðrik Pétursson