Góð ráð

Góð ráð - fyrirbyggjandi viðhald

1 af 3

Mála reglulega

Mikilvægt er að hafa í huga í viðhaldi glugga og hurða að viðurinn má ekki fúna. Til að varna því er gott að mála viðinn með olíumálningu og halda honum vel við. Þumalputtareglan er sú að mála þau svæði sem mest mæðir á annað hvert ár, t.d. botnlistana. Hins vegar er nóg að mála allan gluggann á um 3 til 4 ára fresti. Það varnar því málning springi og vatn komist að viðnum. Einungis skal nota olíumálningu á fleti þar sem vatn getur myndast.  

 

Undirbúa viðinn fyrir málun

Áður en gluggar eru grunnaðir þarf að skrapa af alla lausa málningu, pússa af allan gráma í viðnum og þrífa ryk í burtu. Grunnur þarf að þorna í 24 tíma áður en málað er yfir með olíumálningu/lakkmálningu. Ef málning næst ekki alveg af við pússun getur einnig þurft að sparsla, helst tvær umferðir áður en grunnað er. Mikilvægt er að sparslið þorni á milli umferða í samræmi við upplýsingar á umbúðum. Síðan þarf að pússa sparslið þannig flöturinn verði slettur og þurrka ryk áður en grunnað er.

Gott er að þynna fyrstu umferð af málningu með þynni (t.d. terpentínu) til að málningin smjúgi betur inn í viðinn. Fylgið annars leiðbeiningum um þornunartíma á málningadósunum.

Hér til hliðar eru nokkrar myndir af glugga sem þarfnast viðhalds að innanverðu.

 

Hafa gott loftstreymi

Að innanverðu þarf að gæta þess að loftstreymi um gluggana sé nægjanlegt svo það myndist ekki dögg. Ekki er skynsamlegt að loka gluggum alveg með gardínum, púðum eða öðru slíku bæði vegna vatnsmyndunar (daggar) og hita. Rúður geta sprungið ef eitthvað liggur þétt upp að þeim. Sólbekkir fara víða illa þegar dögg myndast og geta verið kjörinn staður fyrir myglusvepp.

 

Passa grillið

Fara skal varlega með grill nálægt gluggum en hitinn frá grillinu getur sprengt gler.

 

Gler endist ekki að eilífu

Gott er að hafa í huga að gler endist yfirleitt í rúmlega 20 ár. Vegna langvarandi vatnsmyndunar (daggar) og raka geta límingar milli glerja skemmst, en það getur orðið til þess að móða myndast á milli glerja. Þetta vandamál er þekkt og ár hvert skiptir Neyðarþjónustan um margar rúður vegna móðumyndunar.

 

Hér má smella til að senda fyrirspurn eða óska eftir tilboði í glerskipti.