Skilmálar og stefnur

Ábyrgð vegna galla er í samræmi við lög um neytendakaup (lög nr.48/2003) og lög um lausafjárkaup (lög nr.50/2000).
(nema annað sé tilgreint)

Gildir fyrir allar vörur (sjá takmarkanir)

  • Ábyrgðarskírteini eða kaupnóta skilyrði.

  • Í sumum tilfellum getur Snerpa vísað kaupanda beint á umboðsaðila á Íslandi sem tekur í öllum tilfellum styttri tíma.

  • Snerpa áskilur sér rétt til að sannreyna galla innan eðlilegra tímamarka.

  • Ef raftæki reynist ekki gallað eftir athugun eða ekki er um að ræða ábyrgðarviðgerð greiðir kaupandi skoðunargjald í samræmi við verðskrá viðkomandi verkstæðis og/eða flutning ef við á.

  • Ef til úrlausnar ábyrgðar kemur mun Snerpa bjóða eftir atvikum viðskiptavini upp á viðgerð, nýja vöru, afslátt eða afturköllun kaupa.

  • Í öllum tilvikum er fyrst kannaður möguleiki á viðgerð.

Takmarkanir:

  • Ef um ræðir sölu til fyrirtækis þá er ábyrgð á galla 1 ár.

  • Gildir ekki um eðlilegt slit vegna notkunar.

  • Gildir ekki ef tækið hefur verið opnað eða átt við það nema Snerpa hafi yfirumsjón með eða hafi samþykkt verkið.

  • Gildir ekki ef rekja má bilun til illrar eða rangrar meðferðar.

  • Gildir ekki um rafhlöður. Rafhlöður eru rekstrarvara og eðlilegt getur verið að þurfi að endurnýja fyrir lok vélbúnaðarábyrgðar. Framleiðendur veita þó að lágmarki 6 mánaða ábyrgð.

  • Eftirfarandi skilmálar tóku gildi þann 3. ágúst 2021 og gilda um internetþjónustu Snerpu ehf. annars vegar og viðskiptavina Snerpu hins vegar. Þeir gilda um öll viðskipti Snerpu við viðskiptavini félagsins nema um annað sé samið sérstaklega og er bæði kaupendum þjónustunnar og öðrum notendum hennar skylt að hlíta þessum skilmálum.
  • Snerpa áskilur sér rétt til að breyta skilmálum með dagsettri endurútgáfu þeirra. Allir nýjir og eldri samningar falla undir hina nýju skilmála.
  • Snerpa áskilur sér rétt til að færa þjónustu kaupanda milli þjónustukerfa að eigin frumkvæði.
  • Snerpa lætur kaupanda í té aðgang að internet- og tölvuþjónustu sinni. Kaupandi sem skráður er fyrir þjónustunni ber fulla ábyrgð á allri notkun henni tengdri og er með öllu óheimilt að láta af hendi lykilorð til þriðja aðila eða opna aðgang þannig að lykilorðs sé ekki þörf. Óheimilt er að samnýta þjónustuna með öðrum heimilum eða fyrirtæki.
  • Sé tenging keypt í atvinnuskyni er í boði að nýta þjónustuleiðir sem eru í boði til einstaklinga, þó er ekki í boði ómælt gagnamagn nema gerður sé um slíkt sérstakur samningur. Kaupi fyrirtæki þjónustuleið sem ætluð er einstaklingum gildir sama þjónustustig, m.a. að ekki er í boði neinn forgangur að viðgerð ef tenging bilar.
  • Kaupanda að þjónustu Snerpu er með öllu óheimilt að nota aðgang sinn til að komast yfir upplýsingar um aðra notendur á nettengingu Snerpu, aðrar en þær sem veittar eru í opnum gagnagrunnum á vefnum.
  • Noti kaupandi meira gagnamagn en innifalið er í umsaminni áskriftarleið áskilur Snerpa sér rétt til að bæta við gagnamagnspökkum eða flytja kaupanda í aðra áskriftarleið skv. gildandi verðskrá. Aðvörun um slíkt er send á netfang viðkomandi kaupanda og hefur hann þá tækifæri til að færa sig milli áskriftaleiða eða að öðrum kosti fá reikning fyrir aukapökkum. Sé kaupandi á þjónustuleið með ótakmörkuðu gagnamagni áskilur Snerpa sér rétt til að fylgjast með heildarnotkun kaupanda m.t.t. gagnamagnsnotkunar og grípa til viðeigandi ráðstafana sé notkun hans óhæfileg og utan eðlilegra marka að mati Snerpu. Meðalálag sem er meira en 10% af hámarkshraða yfir heilan mánuð telst ávallt utan eðlilegra marka.
  • Kaupanda er óheimilt að trufla, skerða eða á annan hátt hafa áhrif á notkun annarra viðskiptavina, t.d. með fjöldapóstssendingum. Kaupanda er óheimilt að hýsa efni sem brýtur í bága við íslensk lög og reglugerðir s.s. vegna höfundaréttar, eignaréttar eða efni sem brýtur í bága við almennt velsæmi eða láta slíkt efni liggja á lausu á vefsvæðum. Kaupendur þjónustunnar skulu forðast bein skemmdarverk og virða almennar umgengnisreglur sem settar eru á internetinu bæði hvað varðar óhæfilega netumferð, truflun á notkun annarra og vanrækslu á netöryggi.
  • Snerpa tryggir ekki að tengihraði kaupanda sé sá sami og áskriftarleið hans segir til um. Hraði tengingar er ávallt háður gæði línu milli notanda og þjónustu, innanhússlögnum, afköstum búnaðar, álags á línu og öðrum þáttum.
  • Kaupanda ber að tilkynna skriflega uppsögn á internetþjónustu Snerpu eða með tölvupósti frá netfangi hans. Í uppsögn skal koma fram fullt nafn kaupanda og kennitala hans. Uppsögn miðast við mánaðamót og þarf að hafa borist eigi síðar en 15 dögum fyrir mánaðarmót.
  • Snerpa er á engan hátt ábyrg vegna tjóns eða annars skaða sem kann að leiða af því að kaupandi getur ekki nýtt keypta þjónustu.
  • Snerpu er heimilt bjóða upp á samninga þar sem viðskiptavinur skuldbindur sig í allt að sex mánuði. Ef viðskiptavinur segir upp slíkum samningi á samningstíma áskilur Snerpa sér rétt til að krefja viðskiptavinar um þau mánaðargjöld sem ógreidd eru af samningstímanum auk riftunargjalds.
  • Snerpa áskilur sér rétt til þess að hafa samband við viðskiptavin í viðskiptalegum tilgangi, óháð skráningu þeirra í símaskrá. Viðskiptavinum er ávallt heimilt að afþakka slík samskipti af hálfu Snerpu.
  • Fjarskiptasambandi er venjulega ekki komið á við nokkra húseign, nema húseigandi leyfi endurgjaldslaust að koma fyrir fjarskiptabúnaði í húsi og á lóð og ber þeim sem óskar eftir þjónustunni, að sjá um að slíkt leyfi húseiganda/lóðarhafa sé fyrir hendi.
  • Snerpa áskilur sér rétt til að vinna úr gögnum um viðskiptavin í því skyni að bjóða honum nýjar áskriftarleiðir, þjónustu eða önnur tilboð honum til hagsbóta.

- Brot á ofangreindum skilmálum getur haft í för með sér tafarlausa lokun á þjónustunni.

- Rísi mál út af viðskiptasamningum Snerpu skal það rekið fyrir Héraðsdómi Vestfjarða.

  • Snerpa birtir gjaldskrá fyrir þjónustu á hverjum tíma á heimasíðu félagsins.
  • Snerpa býður upp á að áskriftir séu greiddar með kreditkorti og er sá greiðslumáti viðskiptavini að kostnaðarlausu. Kjósi viðskiptavinur hinsvegar að greiða skv. reikningi, kröfu í banka leggst við kröfuna seðilgjald. Upphæð þess má sjá í gjaldskrá.
  • Skráður notandi ber ábyrgð á greiðslum til Snerpu ehf. vegna notkunar þjónustu, óháð því hvort rétthafi hafi heimilað notkunina eða ekki. Nettengingar eru ávallt greiddar fyrirfram og er gjalddagi almennra reikninga er 25. hvers mánaðar og eindagi fimmta dag næsta mánaðar, nema um annað sé samið sérstaklega. Athugasemdir við útgefna reikninga skulu gerðar án tafar og eigi síðar en á eindaga ella teljast reikningar samþykktir.
  • Séu reikningar greiddir eftir eindaga ber viðskiptavini að greiða vanskilagjald auk dráttarvaxta frá gjalddaga kröfunnar. Hafi krafa ekki verið greidd 20 dögum eftir eindaga er hún send í framhaldsinnheimtu, á kostnað skuldara. Snerpa áskilur sér rétt til að loka fyrir þjónustu við vanskil uns skuld er að fullu greidd.
  • Sama innheimtuferli gildir um vörur sem keyptar eru í verslun og eru ekki staðgreiddar. Allar vörur eru með eignaréttarfyrirvara, þ.e. vara telst eign Snerpu þar til hún er að fullu greidd.

Reglur um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar

Snerpa mótar öryggisstefnu sína í þágu viðskiptavina. Eðli máls samkvæmt eru mismunandi áherslur eftir því hvort um er að ræða netþjónustu eða þjónustu við tölvubúnað, en auk þess að reka netþjónustu rekur Snerpa einnig umfangsmikla þjónustustarfsemi við ýmisskonar búnað tengdum tölvuvinnslu, hýsingu tölvubúnaðar og viðhaldsþjónustu.

Af augljósum ástæðum eru ekki birtar í heild þær öryggisráðstafanir sem Snerpa gerir til að vernda öryggi kerfa og viðskiptavina Snerpu. Með því móti væri t.d. hægt að leita leiða fram hjá öryggisvörnum þeim sem eru til staðar. Einnig er rétt að minna á að viðskiptavinir bera eigin ábyrgð á tölvum og öðrum búnaði sem tengist Internetinu, t.d. rétt uppfærðum veiruvörnum og því að sýna almenna varúð, sérstaklega ef átt er í samskiptum við óþekkta aðila.

Samkvæmt reglum Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 1222 skal fjarskiptafyrirtæki birta opinberlega, t.d. á heimasíðu sinni, stefnu um virkni og öryggi fjarskiptaneta sinna. Að lágmarki skal eftirfarandi koma fram:

  • Öryggisstefna fyrirtækisins.
  • Stefna fjarskiptafyrirtækissins um hver sé meðal uppitími, meðal endurreisnartími og hámarksnýting hinna mismunandi fjarskiptaneta þess.
  • Leiðbeiningar til neytenda um hvert þeir geti leitað með ábendingar til fjarskiptafyrirtækisins, telji þeir öryggi og virkni fjarskiptaneta þess ábótavant.

Hvað varðar ofangreindar reglur leitast Snerpa því við að koma á framfæri við notendur upplýsingum um vernd upplýsinga, m.a. með birtingu á notkunarskilmálum, reglum um meðferð annála, reglum um almennar takmarkanir á netumferð og ýmsum ábendingum á vefslóðinni http://www.snerpa.is/adstod/spurningar/ - Jafnframt eru þar birtar helstu upplýsingar um nauðsynlegar stillingar á hugbúnaði, svo sem upplýsingar um nafnaþjóna, póstþjóna og aðra þá þjónustu sem í boði er.

Fyrir frekari upplýsingar er hægt að senda tölvupóst á [email protected].

Öryggisstefna Snerpu

  1. Upplýsingar séu réttar og aðgengilegar þeim sem aðgangsrétt hafa þegar þörf er á.

  2. Upplýsingar séu óaðgengilegar óviðkomandi og varðar gegn skemmdum, eyðingu eða uppljóstrun til óviðkomandi hvort sem er af ásetningi eða gáleysi.

  3. Leynd upplýsinga og trúnaði sé viðhaldið.

  4. Upplýsingar séu varðar gegn þjófnaði, eldi, náttúruhamförum og öðrum slíkum ógnum.

  5. Upplýsingar séu varðar gegn skemmdum og eyðingu af völdum tölvuveira og annars spillihugbúnaðar.

  6. Áætlanir hafi verið gerðar um samfelldan rekstur, þeim sé viðhaldið og þær prófaðar eins og kostur er.

  7. Öryggisatvik, brot eða grunur um veikleika í öryggi upplýsinga séu tilkynnt og rannsökuð og gerðar viðeigandi úrbætur.

  8. Áhættumat sé framkvæmt reglulega til að meta stýringar og árangur.

  9. Áhætta vegna vinnslu og varðveislu upplýsinga sé innan skilgreindra áhættumarka.

  10. Starfsmenn og vinnsluaðilar Snerpu séu upplýstir um skyldu þeirra til að viðhalda trúnaði og öryggi persónuupplýsinga.

Öryggisstefna fjarskiptasambanda

Stefna Snerpu um uppitíma fjarskiptasambanda, endurreisnartíma og hámarksnýtingu sambanda á bakbeinum:

  • Að uppitími hvers sambands fyrir sig, að því marki sem það er á valdi Snerpu, sé ekki minni en 99,996% á ársgrundvelli eða ekki meira en um 20 mínútna rof á ári.
  • Að endurreisn fyrirvaralauss rofs á sambandi, hvort sem sambandið eða hlutar þess er rekið af Snerpu eða ekki, taki mið af því besta sem mögulegt er, að sambönd fari sjálfkrafa á varaleið sé hún fyrir hendi, að upplýsingar um að samband hafi farið niður berist sem næst samstundis til starfsmanns á bakvakt, allan sólarhringinn, allt árið um kring.
  • Að samnýting sambanda sé í samræmi við réttlætanlega þörf, og sé þannig hagað að notendur verði sem minnst varir við hugsanlega skerta afkastagetu vegna samnýtingar á samböndum og búnaði sem notaður er til að reka þau.

Snerpa leggur áherslu á að tryggja öryggi persónuupplýsinga viðskiptavina. Snerpa fer með allar persónuupplýsingar í samræmi við lög 77/2000 um persónuvernd og úrvinnslu persónuupplýsinga. Með því að nota vefsíðu, vörur og þjónustu Snerpu veitir viðskiptavinur samþykki sitt fyrir þessum skilmálum sbr. 1.tl.1.mgr.laga um persónuvernd nr. 77/2000. Hugtök skulu hafa sömu merkingu í skilmálum þessum og þau hafa í lögunum.

Snerpa safnar/notar persónuupplýsingar í þeim tilgangi að gera viðskiptavinum kleift að nýta sér þá þjónustu og þær vörur sem fyrirtækið býður viðskiptavinum, til að greiða fyrir bókhaldi, útsendingu reikninga og endurskoðun.

Snerpa hefur sett sér verklagsreglur um vinnslu og meðferð persónuupplýsinga og tileinkað sér góða og viðurkennda starfshætti með tilliti til meðferðar þeirra.

Þetta felur í sér:

  • að þær upplýsingar sem Snerpa skráir um viðskiptavini skulu alltaf vera í lágmarki,
  • að Snerpa vinnur einungis með og skráir þær persónuupplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna tilgangs vinnslu, þ.e. lágmörkun gagna
  • að gagnagrunnur Snerpu er með sjálfvirkum eða handunnum hætti hreinsaður í lok tilgreinds tímabils og sé aldrei geymdur lengur en nauðsyn krefur vegna tilgangs þjónustu
  • að Snerpa hefur virka aðgangsstýringu ásamt því að persónuupplýsingar eru tiltækar til afhendingar fyrir viðskiptavini þegar þeir óska eftir þeim.

Viðskiptavinir Snerpu eiga rétt á að rangar, villandi eða ófullkomnar persónuupplýsingar séu leiðréttar eða þeim eytt. Viðskiptavinir eiga rétt á að persónuupplýsingum sé eytt ef ekki er lengur málefnanleg ástæða til að varðveita þær. Undantekning á þessu eru persónuupplýsingar sem félaginu ber skylda til að varðveita skv. lögum eða öðrum reglum.

Snerpa safnar aldrei eða vinnur með persónuupplýsingar nema með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og gætir þess jafnframt að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga.

Að því leyti sem þessum skilmálum sleppir gilda viðeigandi lög og reglur hverju sinni.

Ef þú hefur einhverjar spurningar þá vinsamlegast sendu okkur tölvupóst á [email protected].

Skipti- og skilafrestur á óopnuðum og ónotuðum vörum sem keyptar eru hjá Snerpu er 14 dagar frá dagsetningu kvittunar fyrir. Við skil á vöru er miðað við upprunalegt verð vörunnar og fæst það endurgreitt í formi inneignarnótu.

Skil á vöru eru háð eftirfarandi skilyrðum:

  • Að framvísað sé kvittun fyrir kaupum á viðkomandi vöru.
  • Að umbúðir séu ópnaðar og innsigli frá framleiðanda órofin.
  • Að vara teljist í söluhæfu ástandi.
  • Að allar handbækur, fylgihlutir, fylgigögn og umbúðir fylgi með í upprunalegu ástandi.
  • Að ekki hafi verið settur upp hugbúnaður á vöruna/búnaðinn.
  • Að varan sé ekki útsöluvara.
  • Að varan sé ekki sérpöntun eða sérsniðin að þörfum viðskiptavinar.

Snerpa áskilur sér rétt til að hafna skilum á vörum séu ofangreind skilyrði ekki uppfyllt.

  • Það er alfarið á ábyrgð eiganda að afrita gögn sín reglulega og skal það gert áður en komið er með vélar til meðferðar á verkstæði Snerpu. Snerpa ber ekki ábyrgð á gögnum í tölvum eða tækjum sem komið er með til viðgerðar/uppfærslu á verkstæði.
  • Snerpa þjónustar vélar sem enn eru í ábyrgð og eru keyptar hjá Snerpu eða samstarfsaðilum. Þegar um slíkt er að ræða þarf að fylgja reikningur/ábyrgðaskírteini með vélinni þegar komið er með hana til viðgerðar. Snerpa þjónustar ekki vélar í ábyrgð sem ekki eru keyptar hjá Snerpu eða af samstarfsaðilum.
  • Ef bilun í vélum rúmast ekki innan tímaramma ábyrgðar þeirra ber eiganda að greiða fyrir þá vinnu sem innt er af hendi á verkstæði skv. verðskrá Snerpu.
  • Séu tæki í viðgerð ekki sótt innan þriggja mánaða frá því að viðgerð þeirra lauk áskilur Snerpa sér rétt til að selja viðkomandi tæki fyrir áföllnum kostnaði eða farga tæki.

Upp