Sagan

Saga fyrirtækisins

Árið 1992 stofnaði Grétar Eiríksson fyrirtækið Trésmíðaþjónusta Grétars ehf.  kt. 411292-2239 (síðar Gler og lásar ehf). Fyrirtækið tók að sér alla almenna vinnu á sviði trésmíði en tjónaviðgerðir fyrir tryggingafélög, vegna vatns- og innbrotstjóna á húseignum, urðu fljótlega veigamikill hluti verkefnanna. Þremur árum síðar hóf félagið að starfrækja útkallsþjónustu allan sólarhringinn. Þjónustan fólst aðallega í bráðaviðgerðum eins og að byrgja fyrir brotnar rúður og lagfæra dyraumbúnað. Starfsmenn fyrirtækisins komu þá á sérútbúnum vinnubíl með öllum verkfærum og tilheyrandi búnaði. Vegna þessa hafði fyrirtækið náið og gott samstarf við Lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu sem og tryggingafélög og öryggisfyrirtæki, en þessir aðilar hafa allir nýtt sér þjónustu fyrirtækisins, auk forsvarsmanna fyrirtækja og almennings.

 

Árið 1997 hóf Grétar að mennta sig í lásasmíði og sótti nám á því sviði næstu árin, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Tveimur árum síðar fékk hann inngöngu í bandarísku lásasamtökin (ALOA – Associated Locksmiths of America) sem lásasmiður. Allar almennar lásaopnanir og lásaviðgerðir urðu þar með hluti af þeirri þjónustu sem hann veitti allan sólarhringinn, ásamt bráðaviðgerðum. Þess má geta að Grétar er líka félagi í samtökum evrópskra lásasmiða (ELF - European Locksmith Federation), SAFTA í Bandaríkjunum (Safe & Vault Technicians Association) og Samtökum iðnaðarins á Íslandi.

Síðastliðinn áratug hafa verkefni fyrirtækisins að mestu leyti snúið að glerísetningum ásamt hvers kyns viðgerðum á sviði trésmíði, þó sérstaklega viðgerðum á hurðaumbúnaði, bæði úr tré og áli.

 

Frá því fyrirtækið hóf að bjóða upp á útkallsþjónustu hefur starfsmaður verið á vakt á sérútbúnum vinnubíl, eins konar verkstæði á hjólum, allan sólarhringinn, allt árið um kring, til að sinna bráðaviðgerðum og lásaopnunum á höfuðborgarsvæðinu.

 

Árið 2009 var sú breyting gerð að Gler og lásar – Neyðarlokanir ehf. kt. 711208-0620 tóku við öllum rekstri og verkefnum fyrirtækisins og nafni þess breytt í Gler og lásar – Eignarhaldsfélag ehf kt. 411292-2239. Breytingin var gerð í hagræðingarskyni en eignarhald fyrirtækjanna breyttist ekki og eru Grétar Eiríksson og kona hans, Elín Hilmarsdóttir, einu eigendur þeirra beggja.

 

Þann 1.mars 2014 tók Sif Grétarsdóttir við stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækisins og Sonja Kjartansdóttir sem fjármálastjóri. Sonja var um árabil bókari fyrirtækisins.

Þann 1.janúar 2015 sameinaðist félagið svo systurfélagi þess, Neyðarþjónustunni ehf. kt. 661107-1110, undir þeirri kennitölu. Innan Neyðarþjónustunnar ehf. eru í dag reknar tvær deildir, lásadeild og glerdeild, en verkefni deildanna tvinnast gjarnan saman. Opnunartíma lásaútkalla var breytt sumarið 2015.