Snerpa og Míla semja um aðgang á 30 ára afmæli
Snerpa og Míla hafa skrifað undir samning um aðgang að ljósleiðaraheimtaugum Snerpu og það á afmælisdegi Snerpu, en fyrirtækið fagnar 30 ára afmæli sínu í dag. Þjónustusvæði Mílu mun því stækka á Vestfjörðum og brátt mun Míla veita tengingar í heildsölu til heimila og fyrirtækja um ljósleiðarakerfi Snerpu. Samningurinn kallar á að sett séu upp sambönd og búnaður á hverjum þéttbýlisstað fyrir sig og í flestum tilfellum þá einnig nærsveitir. Á næstu dögum stendur til að þjónusta verði í boði í Bolungarvík og munu svo nýir staðir bætast inn jafnt og þétt og verður það kynnt af Mílu jafnóðum.
Snerpa er 30 ára gamalt fyrirtæki sem Vestfirðingar þekkja vel og veitir alhliða tölvu- og netþjónustu víða um Vestfirði. Fyrirtækið hefur undanfarin ár lagt ljósleiðara á norðanverðum Vestfjörðum sem Míla hefur nú samið um aðgang að. „Snerpa sér samninginn sem tækifæri til aukinnar nýtingar á ljósheimtaugakerfi sínu og jafnframt aukins vals fyrir neytendur. Aukið val skilar sér í bættri samkeppni sem eykur hag Vestfirðinga.“ segir Björn Davíðsson framkvæmdastjóri Snerpu.
Forstjóri Mílu, Erik Figueras Torras, sótti forstjóra Snerpu, Björn Davíðsson, heim í dag af þessu tilefni og færði Snerpu að gjöf mynd af fjarskiptamastri Mílu á Patreksfirði en fyrirtækin hafa átt í samstarfi um áratugaskeið við að veita Vestfirðingum fjarskiptaþjónustu bæði til sjós og lands.
Samkvæmt Erik þá mun þessi samningur marka tímamót og styrkja ljósleiðarakerfi Vestfjarða til lengri tíma. „Það er okkur mikilvægt að tryggja að landsmenn hafi aðgang að háhraða nettengingum. Öflugar nettengingar eru lykilþáttur í samkeppnishæfni þjóða, efla atvinnulíf, opna á ný tækifæri og búa til svigrúm til nýsköpunar.“ segir Erik.
Mynd: Erik Figureras Torras forstjóri Mílu færði Birni Davíð, framkvæmdastjóra Snerpu, ljósmynd að gjöf í tilefni 30 ára afmælis Snerpu.