Snerpa og Ljósleiðarinn í samstarf
Ljósleiðarinn og Snerpa undirrituðu fyrir helgina samning um aukið samstarf sem leiðir af sér aukin tækifæri fyrir önnur fjarskiptafyrirtæki til að bjóða uppá eigin þjónustu á Vestfjörðum með ljósleiðarasambandi frá Snerpu.
Snerpa hefur leitt samkeppnina á sínu þjónustusvæði og byggt upp öflugt ljósleiðaranet sem nær um allan norðurhluta Vestfjarða og því um viðamikið ljósleiðarakerfi að ræða sem mun samtengjast við OpnaNet Ljósleiðarans til heimila. Einnig eru í vinnslu frekari útbreiðsluáætlanir á suðurfjörðum Vestfjarða.
Fjarskiptafélög sem nýta sér þjónustu Ljósleiðarans munu þannig geta pantað ljósleiðaraþjónustu til heimila á kerfum Snerpu í gegnum þjónustuvef og þjónustuviðmót Ljósleiðarans með sama hætti og þau panta á ljósleiðaraneti Ljósleiðarans. Með þessu samstarfi eflist til muna sú samkeppni sem er til staðar á Vestfjörðum og ber að fagna því.
Samhliða nýju samstarfi undirritaði Snerpa þjónustusamning við Ljósleiðarann um að veita eigin fjarskiptaþjónustu yfir ljósleiðaranet Ljósleiðarans. En Snerpa, sem er 30 ára um þessar mundir, hefur um árabil boðið heimilum og fyrirtækjum Internetþjónustu, ásamt þeim viðbótarþjónustum sem því fylgir.
Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, segir um samninginn: "Ljósleiðarinn hefur frá 2022 boðið upp á gagnaflutningsþjónustu á landsbyggðinni með því markmiði að nýta innviði og hugvit Ljósleiðarans til að gera viðskipti fjarskiptafélaganna á öðrum ljósleiðaranetum einfaldari og hagkvæmari. Við fögnum auknu samstarfi og bjóðum Snerpu hjartanlega velkomna í þann hóp viðskiptavina okkar sem selja þjónustu á kerfum Ljósleiðarans til heimila, fyrirtækja og stofnana. Við óskum Snerpu jafnframt til hamingju með 30 ára afmælið."
Ljósleiðarinn er stoltur af því að geta veitt þessu rótgróna fyrirtæki góða þjónustu til að halda áfram að leiða samkeppni og veita Vestfirðingum möguleikann á háhraða netsambandi.